Tæknispá 2025: Gervigreind, geimurinn og sannleikurinn sjálfur
Tækni er ekki bara hluti af lífi okkar – hún er samofin manninum sem tegund. Þessi einfalda staðreynd gleymist oft. Allt sem færir okkur mat, hlýju, skjól, ferðamáta, afþreyingu og hefur með öðrum hætti mótað daglegt líf okkar – frá einföldum steinverkfærum og ritmáli til snjallsíma og gervigreindar – var eitt sinn byltingarkennd tækninýjung.
Að fylgjast með tækninýjungum veitir þannig beinlínis innsýn í hvert við stefnum sem samfélag og sem tegund. Það er þess vegna ekki úr vegi að velta því aðeins fyrir sér svona um áramót, eins og ég hef reyndar gert núna í bráðum 20 ár!
Í þetta sinn eru það gervigreind, geimtækni og sannleikurinn sjálfur sem eru mér efst í huga.
Gervigreindin í almenna notkun
Á síðasta ári snerist Tæknispáin alfarið um gervigreind, enda setti hún sannarlega svip sinn á árið. Við erum óumdeilanlega að yfirstíga ótrúlegt skref í tæknisögu mannkynsins þessi misserin: Að geta átt í samskiptum við tækin á okkar eigin tungumáli.
Hingað til höfum við þurft að læra tungumál tölvunnar eða reiða okkur á hugbúnaðarsérfræðingana sem kunna að búa til hugbúnað sem gerir okkur kleift að nýta tölvurnar. Nú stefnum við hraðbyri inn í framtíð þar sem hver sem er getur beðið tölvur um að leysa flóknustu verkefni á sínu eigin tungumáli.
Allt sem mannlegur aðstoðarmaður getur leyst með aðgangi að tölvu og internetinu getur stafrænt "aðstoðarmenni" bráðlega leyst af hólmi – og við munum öll hafa aðgang að nánast ótakmörkuðu vinnuframlagi slíkra menna. Eins og vélarnar leystu vöðvaaflið af hólmi leysir gervigreindin nú smám saman af hólmi hluta hugaraflsins! Ógnvænleg og heillandi tilhugsun í senn.
Þetta gerist ekki í einni svipan, en á þessu ári mun notkun og innleiðing gervigreindar færast frá framsæknustu fyrirtækjum og einstaklingum inn í meginstraum fyrirtækjarekstrar og daglegs lífs.
Gögn frá Bandaríkjunum sýna að aðeins rúm 6% fyrirtækja þar í landi nota í árslok 2024 gervigreind í sinni grunnstarfsemi, en akademískar rannsóknir sýna fram á 23% framleiðniaukningu hjá slíkum fyrirtækjum, á meðan fyrirtækin sjálf tilkynna allt að 30% aukningu (sjá frétt).
Með öðrum orðum, jafnvel þó þróun gervigreindar myndi stöðvast og sú tækni sem nú þegar er til staðar kæmist í almenna notkun, erum við að tala um gríðarlegar breytingar. Og það er ekki eins og þróunin sé að stöðvast!
Íslenskur vinkill: Orkuþörf gervigreindar
Þjálfun gervigreindarlíkana þarfnast gríðarlega mikillar raforku. Til að setja raforkuþörfina í samhengi, nota gagnaver í heiminum um 2% af raforku heimsins samkvæmt nýjustu greiningu Alþjóða orkustofnunarinnar. Spáin er sú að þessi notkun gæti tvöfaldast á fjögurra ára tímabili, meðal annars vegna gervigreindar. Hún gæti í heild farið yfir 1000 teravattstundir árlega fyrir lok áratugarins, en heildarframleiðsla raforku á Íslandi er um 20 teravattsstundir á ári.
Þó að hlutfallið af heildarraforkuframleiðslu heimsins sé enn lágt, eru magntölurnar gríðarlega háar og vöxturinn margfaldur á við það sem gerist í öðrum geirum. Það er því gríðarleg eftirspurn eftir orku til reksturs gagnavera og orkunotkun gervigreindar er sérstök að því leyti að mesta orkunotkunin fer í áðurnefnda þjálfun, en slík verkefni þurfa ekki að vera staðsett nálægt endanotendum.
Endurnýjanlegir orkugjafar, kalda loftið og þetta óhæði staðsetningar hefur leitt til þess að alþjóðlegir tæknirisarnir munu nær allir vera að skoða umfangsmikil verkefni hér á landi.
Íslensk heimili og fyrirtæki önnur en stóriðja nota aðeins um 20% af heildarraforkuframleiðslu hérlendis. Það þarf þess vegna að fara afar rúmt í skilgreiningar til að kalla ástandið "orkuskort", en hins vegar er óumdeilanlega gríðarleg umframeftirspurn og hún fer vaxandi.
Ég gæti trúað því að eitt af verkefnum stjórnvalda – strax á þessu ári – verði að móta heildstæða stefnu í þessum málum sem eigendur stærstu raforkuframleiðendanna og ábyrgðaraðilar fyrir bæði náttúruvernd og atvinnustefnu.
Sigrar og töp
OpenAI hefur borið höfuð og herðar yfir aðra í gervigreindarþróun síðustu ára. Fyrirtækið hefur verið mest áberandi, ChatGPT er langmest notaða gervigreindarlausnin, tekjuvöxturinn er hraðari en nokkru sinni hefur sést og hreint ekki ólíklegt að OpenAI verði eitt af 5-10 stærstu fyrirtækjum heims innan fimm ára.
Að því sögðu eru tæknirisarnir að ná vopnum sínum hratt í þessari samkeppni og eftir margar misheppnaðar tilraunir síðustu tvö ár er Google á hvað mestri siglingu. Amazon mun líklega kaupa Anthropic (framleiðanda næstvinsælustu lausnarinnar – Claude) og samstarf Microsoft og OpenAI er mjög náið. Evrópska gervigreindarfyrirtækið Mistral mun nær örugglega líka verða keypt af einhverjum bandarísku tæknirisanna.
Auk tækifæranna eru áskoranirnar fjölmargar. Tækniframfarir síðustu áratuga hafa sannarlega nýst okkur öllum, en þær hafa líka gert það að verkum að gríðarlegur auður og völd hafa safnast saman og áhrif stakra fyrirtækja og jafnvel einstaklinga í tæknigeiranum jafnast nú á við sum af stærri ríkjum heims.
Réttlát skattheimta af þessari starfsemi á heimsvísu, dreifing ávinningsins til samfélagsins og hreinlega valdabarátta einkafyrirtækja og þjóðríkja eru raunveruleg viðfangsefni komandi ára.
Geimurinn: Fyrsta tunglferðin í 50 ár og gagnaver í geimnum
Geimferðir verða sífellt hagkvæmari og það er margt áhugavert að gerast í geimtækni. SpaceX heldur áfram að brjóta blöð í sögunni með ódýrari, stærri og örari geimskotum og það þarf ekki annað en að horfa upp í stjörnuhimininn á heiðskírri nóttu til að sjá hversu mjög gervitunglum hefur fjölgað. Stór hluti þessara sýnilegu gervitungla eru Starlink-gervihnettir SpaceX, en nærri 7000 þeirra eru nú á sporbaug í kringum jörðina og verða yfir 40 þúsund gangi áætlanir fyrirtækisins eftir. Til samanburðar er heildarfjöldi annarra gervihnatta sem skotið hefur verið á loft frá upphafi innan við 15 þúsund og aðeins um 7000 þeirra virkir í dag. Starlink ræður með öðrum orðum yfir helmingi þeirra gervihnatta sem eru á braut um jörðu. Þessir gervihnettir gera Starlink kleift að veita háhraðanetþjónustu á viðráðanlegu verði hvar sem er á hnettinum (enn sem komið er þó aðeins að litlu leyti í Afríku og Asíu) sem setur fyrirtækið í einstaka aðstöðu í öllu frá öryggis- og hernaðarmálum til sjóferða og nettenginga í dreifbýli.
Stærstu tíðindi ársins áttu svo að verða fyrsta mannaða tunglferðin í meira en 50 ár: Artemis II verkefni NASA. Áætlað var að það færi á loft undir árslok 2025, en nýverið frestaði NASA skotinu til apríl 2026. Þó að ferðin muni reyndar ekki lenda á tunglinu, mun áhöfnin ferðast lengra frá jörðu en áður hefur verið gert. Áhöfnin er jafnframt söguleg, með geimfarana Christinu Koch og Victor Glover sem fyrstu tunglferðalangana sem ekki eru karlmenn af evrópskum uppruna.
Ódýr geimskot gefa líka færi á alls kyns nýsköpun og tilraunastarfsemi. Þarna koma til dæmis gervigreindartæknin og geimferðir saman þar sem undirbúningur er hafinn að fyrstu gagnaverununum í geimnum. Þar er óendanleg sólarorka fyrir hendi allan sólarhringinn og auðvelt að senda gögn fram og til baka. Verði slíkt að veruleika mun það augljóslega umturna gagnavera- og með tímanum jafnvel orkumarkaðnum. Í því samhengi er vert að minnast á samstarfsverkefni breska fyrirtæiksins Space Solar, íslenska loftslagsfyrirtækisins Transition Labs og Orkuveitunnar.
Endalok sannleikans?
Samfélagsmiðlalandslagið hefur gjörbreyst: Twitter, sem varð að X árið 2023, naut yfirburðastöðu í rúman áratug sem vettvangur opinberrar umræðu víða á Vesturlöndum. En kaup Elons Musk á fyrirtækinu 2022 sendu marga notendur í leit að nýjum vettvangi. Meta setti á markað Threads sem ekki hefur náð mikilli útbreiðslu, Trump er með sinn Truth Social, og dreifðar lausnir eins og Mastodon og sérstaklega Bluesky, sem hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu, hafa komið fram á sjónarsviðið.
Hér á landi var Facebook mun meira áberandi í opinberri umræðu en það hefur greinilega dregið úr því vægi og eflaust margir sem gráta ekki endilega þann "missi". Það hefur samt ekki dregið úr notkun samfélagsmiðla, heldur fer miklu stærri hluti notkunarinnar nú fram í minni hópum og lokaðri umræðu eins og komið var inn á í Tæknispánni 2023 um "persónulegari samfélagsmiðla".
Þó margt megi gott segja um þessa þróun, þá hefur hún – samhliða minnkandi lestri og áhrifum hefðbundinna fjölmiðla – í för með sér að sameiginlegur reynsluheimur hvers samfélags og heimsins alls hefur riðlast. Algrímin – og við sjálf – veljum ofan í okkur upplýsingar sem okkur líður vel með og samræmast okkar sjálfs- og heimsmynd svo mjög að jafnvel umræða um blákaldar staðreyndir og náttúrulögmál finnur engan fastan flöt til að standa á.
Gervigreindin eykur svo enn á þessa óreiðu. Hún getur – auk þess að hafa stundum óafvitandi rangt fyrir sér við bestu aðstæður – í höndum rangra aðila spunnið upp afar sannfærandi ósannindi, búið til hágæða myndir og myndskeið af hlutum sem aldrei urðu og hermt eftir röddum hvers sem er. Af þeim 8 hlutum sem ég spáði að gervigreindin myndi gera á síðasta ári var þetta sú sem ég var mest hissa á að sjá ekki meira af – til dæmis í tengslum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
Rekjanleiki og sannreynsla upplýsinga er því eitt af stóru viðfangsefnum komandi missera. Þarna ætla ég að spá því að gamall vinur Tæknispárinnar – blockchain-tæknin (sjá 2022 og 2018) – muni finna sinn farveg í almenna notkun, enda gefur hún kost á því að merkja stafrænar skrár með þeim hætti að unnt er að rekja uppruna, feril og breytingasögu þeirra allt aftur til þess einstaklings, staðar og tækis sem þær eiga uppruna sinn í. Þannig væri hægt að sannreyna að mynd hafi verið tekin með tilteknu tæki á tilteknum stað og tíma og að henni hafi ekki verið breytt síðan eða að tiltekinn texti hafi verið skrifaður af ákveðnum einstaklingi tiltekinn dag.
Niðurlag
Við göngum í gegnum tíma umbreytinga í tengslum við margvísilega tækniþróun. Gervigreindin endurskilgreinir vinnu og daglegt líf okkar. Geimtæknin færir okkur nær draumi vísindaskáldsögunnar um mannkynið í geimnum. Og við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum í því að hvorki meira né minna en varðveita sannleikann.
Eins og sagði í upphafi eru tæknisagan og mannkynssagan órjúfanlega samofin. Það eru engin dæmi um það í mannkynssögunni að þróun nýrrar tækni hafi verið algerlega stöðvuð, en við getum mótað hana, hvar við kjósum að láta áherslurnar liggja og hvernig við nýtum hana til góðs frekar en ills.
Þannig mun tæknin halda áfram að móta okkur, á sama tíma og við mótum hana.